Hjá mörgum íþróttafélögum tíðkast inntökuvígslur af einhverju tagi. Yfirleitt er nýliði þá látinn gera eitthvað sem honum er erfitt eða er niðurlægjandi. Í samfélagsumræðunni hefur áherslan einna helst verið á slíkar vígsluathafnir hjá karlmönnum en Ingólfur Vilhjálmur Gíslason - prófessor í félagsfræði við háskóla Íslands, hefur verið að rannsaka busanir kvennaliða.
Tónleikaröðin Björk Orkestral fer fram þessa dagana í Hörpu en þar flytur Björk Guðmundsdóttir berstrípaðar útgáfur af lögum sínum. Í dag flytjum við okkur seinni hluta viðtals okkar við Björk, þar sem við ræddum meðal annars samstarf, útsetningar, metoo og birtingarmyndir kvenna í tónlistarbransanum.
Gunnar Ragnarsson kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar tekur fyrir tvær myndir í dag. Annars vegar sigurvegara kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, Titane eftir Juliu Ducournau og hinsvegar Leynilöggu, sem átti á dögunum stærstu frumsýningarviku Íslandssögunnar. Myndin hefur hlotið góða dóma erlendis, meðal annars fyrir afbökun á heterónormatívum hasarmyndarstílnum, en Gunnari þykja ástarsenurnar fremur dauflegar.