Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur samlífi og gagnvirkum áhrifum skemmtanalífs og nýsköpunar í tónlist. Við fræðumst um rannsóknir á næturhagkerfinu, við röltum milli sögufrægra hinsegin skemmtistaða og við skellum okkur á skrallið í Reykjavík.
Milli innslaga í dag heyrum við stutt brot úr íslensku næturlífi í gegnum árin:
Könnun útvarpsmannsins Páls Heiðars Jónssonar á skemmtanalífinu í Reykjavík 1973, göngutúr Markúsar Arnar Antonssonar þáverandi borgarstjóra um miðbæinn eftir lokun árið 1990, heimsókn nokkurra kvenna á skemmtistaði árið 1993 á vegum sjónvarpsþáttarins Dagsljóss, og goðsagnakennda þjóðfélagsgreiningu Páls Óskars Hjálmtýssonar úr heimildarmyndinni Popp í Reykjavík frá árinu 1998.