Í síðustu viku ræddi Lára Herborg Ólafsdóttir lögfræðingur við okkur um reglugerðardrög evrópusambandsins um gervigreind og þau tækifæri og hindranir sem felast í að setja skorður á sköpun hennar. Í dag segir hún okkur frá einni hindruninni, álitamálum um höfundarrétt þar sem mögulegur höfundarréttur apa gæti verið fordæmisgefandi.
Melkorka Gunborg Briansdóttir mun flytja okkur pistla hér í Lestinni næstu mánudaga og pistli sínum í dag frá óvenjulegu skiptinámi í London á tímum heimsfaraldurs, mannlausar götur og súrrealískar messur koma meðal annars við sögu.
Við heyrum líka um nýja kvikmynd hollenska listamannsins og pólitísku broddflugunnar Renzo Martens, mynd sem nefnist White Cube, en þar gerir hann tilraun til að tengja saman tvo gjörólíka en þó tengda heima, pálmaolíuplantekrur stórfyrirtækisins Unilever í einu fátækasta ríki heims, og listasöfn í stórborgum Evrópu sem eru styrkt af þessu sama stórfyrirtæki.
En við ætlum að byrja á djamminu. Síðasti þáttur Lestarinnar, nú á fimmtudag var tileinkaður djamminu. Við ræddum næturhagkerfið, röktum sögu djammtónlistar og kíktum á röltið um hinsegin skemmtistaðasögu Reykjavíkur með Guðjóni Ragnari Jónssyni. Þegar við settumst niður, fótalúin eftir labbið, rákumst við á annan einstakling með sterk tengsl við samtíma sögu hinsegin djammsins. Hún er þáttastjórnandi á KissFM, hún er rappari og meðlimur Reykjavíkurdætra og hún rak til skamms tíma, hinsegin skemmtistað.