Kolbeinn Rastrick flytur seinni pistil sinn um heimildamyndahátíðina Skjaldborg sem fór fram um hvítasunnuhelgina. Ragnar Kjartansson í Moskvu, eina barnið í Grímsey, ónotaður fótboltavöllur á Hellisandi, eru meðal viðfangsefna myndanna sem voru sýndar á hátíðinni.
Við í Lestinni höfum verið í fráhvörfum eftir að sjónvarpsþættirnir Succession og Afturelding luku göngu sinni um hvítasunnuhelgina. Í Aftureldingu voru helstu endar hnýttir en samt ekki nógu fast til að loka fyrir möguleikann á framhaldi. Og Succession hefur fengið nánast einróma lof fyrir vel unninn lokaþátt þar sem áhorfendur fengu einhverskonar úrlausn. Í kjölfarið höfum við verið að velta fyrir okkur eftirminnilegum lokaþáttum og hvernig er best að ljúka sjónvarpsþáttaröðum. Davíð Már Stefánsson handritshöfundur og Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri spjalla um það hvernig maður endar sjónvarpsseríu.