Lestin snýr aftur úr sumarfríi og veður beint í boltann. Þáttur dagsins er tileinkaður fótbolta, þeirri fögru íþrótt, en þó alls ekki íþróttinni sjálfri heldur því sem gengur á hjá fólkinu allt í kringum hana, menningu og ómenningu íslensku fótboltahreyfingarinnar.
Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans í Sjónvarpi Símans, Sævar Pétursson framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, og stjórnarmeðlimur í Íslenskum toppfótbolta, ÍTF, og Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ sem bauð sig fram til formanns KSÍ árið 2007 setjast með okkur í hljóðstofu og kryfja stöðuna sem upp er komin í efstu röðum Knattspyrnusambands Íslands.