Bókin Allt sem við misstum í eldinum, smásagnasafn argentínska rithöfundarins Mariana Enriquez, kom út hjá Angústúru á þessu ári. Í bókinni er að finna lýsingar á argentínsku lífi, sögur sem varpa ljósi fátækt, stéttaskiptingu, neyslu og heimilisleysi. Í bakgrunni eru ofbeldisverk fyrri kynslóða, og það liggur alltaf eitthvað drungalegt í loftinu. Ungt fólk glímir við óhugnanlegan innri og ytri veruleika, sér sýnir og verður vitni að hryllingi, ímynduðum eða raunverulegum, það er aldrei alveg víst hvort það er. Við sláum á þráðinn til þýðanda bókarinnar, rithöfundarins og útvarpsmannsins, Jóns Halls Stefánssonar.
Hljómsveitin Mæðraveldið leikur grúvaða hip hop tónlist þar sem ýmislegt blandast saman, meðal annars suðræn áhrif og textar sem taka á mikilvægum málefnum. Meðlimir sveitarinnar eru rapparinn og taktasmiðurinn Eyjólfur Eyvindarson, betur þekktur sem Sesar A, Margrét Thoroddsen, söngkona og hljómborðsleikari og Þórdís Claessen sem leikur á bassa.
Eyrún Lóa Eiríksdóttir rýnir í ítalska jólaþætti Ég hata jólin, Odio il Natale, þar sem viðfangið jólakærasti er í brennidepli.