Lestin heldur til tunglsins með Halldóri Eldjárn, tónlistarmanni og tölvunarfræðingi. Í þrjú ár hefur hann haldið úti veftónverkinu Poco Apollo. Það er vefsíða sem sækir handahófskenndar myndir úr safni NASA, myndir sem geimfarar tóku í Apollo tunglferðunum, og umbreytir þeim í tónverk. Blæbrigði tónverksins breytast og verða til út frá innihaldi myndarinnar. Nú hefur Halldór svo unnið heila plötu út frá þessum litlu mynd-tónverkum.
Langhlauparinn Eliud Kipchoge sló met um helgina - eða ekki. Maraþon-hlaup hans undir tveimur tímum fæst ekki viðurkennt sem heimsmet þar sem aðstæðum var stjórnað um of - voru of fullkomnar. Hlaupið er engu að síður sögulegt og mun hafa mikil áhrif á langhlaupara um allan heim. Kannski hefur það nú þegar haft sitt að segja í heimi heimsmetanna. Hlaupagarparnir Bjartmar Örnuson og Vilhjálmur Þór Svansson hoppa um borð í Lestina og skýra afrek Kipchoge.
Í vikulegum pistli sínum heldur Halldór Armand Ásgeirsson áfram að velta fyrir sér lagalegum réttindum náttúrufyrirbæra. Hann sér fyrir sér hvernig menningarfræðingur af fjarlægri plánetu myndi greina menningu og sjálfsmynd mannkynsins.