Í þætti dagsins veltum við fyrir okkur möguleikanum á því að nota hraunrennsli úr eldgosum á borð við það sem nú stendur yfir á Reykjanesi til þess að búa til undirstöður nýrra og umhverfisvænni borga. Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt en arkitektarnir og mæðginin Arnhildur Pálmardóttir og Arnar Skarphéðinsson segja það þó ekkert fáránlegra en mengandi byggingariðnaður dagsins í dag.
Við heyrum um þriðju þáttaröð rómantísku gaman-seríunnar Master of None en hún er sú fyrsta sem kemur út eftir að ung kona sagði nafnlaust frá stefnumóti með skapara og aðalleikara þáttanna Aziz Ansari og sagði hann hafa verið ágengan, óþægilegan og fara langt yfir mörk hennar. Júlía Margrét Einarsdóttir er hins vegar ánægð með nýju seríuna og hvernig höfundar þáttanna vinna úr málinu.
Veraldarvefurinn er á einhvern máta eitt villtasta vestur samtímans sem erfitt er að koma böndum á. Þó freistar evrópusambandið þess ítrekað, fyrst svo eftir var tekið, með persónuverndarreglugerð og nú með nýjum reglum um gervigreind. Við fáum Láru Herborgu Ólafsdóttur lögmann til þess að útskýra fyrir okkur um hvað málið snýst.