Hún er kölluð Roller Derby á frummálinu, íþróttin sem á íslensku hefur verið þýdd sem hjólaskauta-at. Hjólaskautabanarnir Forynjur hafa verið á vergangi síðastliðin tíu ár, en eru nú loks komnar með eigið húsnæði. Við kíkjum í heimsókn og fræðumst um atið og atarana.
Við heimsækjum Gúlagið, æfingahúsnæði sem er heimili akureysku plötuútgáfunnar MBS Skífur. Við ræðum við tvo liðsmenn útgáfuhópsins um grasrótartónlistarsenuna fyrir norðan.
Tómas Ævar Ólafsson lýkur rannsókn sinni á leiðinlegasta húsverkinu, uppvaskinu. Hann veltir því fyrir sér hvort uppþvottavélin leysi vandamálið.
Og við ætlum að fara yfir helstu sigurvegara Golden Globe verðlaunanna sem voru afhent í gær.