Mikil umræða hefur skapast um nýja leikna mynd sem fjallar um líf Amy Winehouse. Myndin, sem nýbyrjuð er í tökum, er nú þegar orðin umdeild. Eins og oft áður er tekist á um hvernig leikarar líta út og hver má segja söguna, og hvort það sé einfaldlega of snemmt að gera mynd um Amy Winehouse.
Steinunn Sigþrúðar Jónsdóttir fjallar um sýninguna Grímur manneskjunnar, sem tveir ungir norskir listamenn komu með hingað til lands fyrir 40 árum. Til stóð að halda sýninguna í Norræna húsinu en listamennirnir héldu á brott skömmu áður en sýningin opnaði. Málið olli fjaðrafoki og rataði í fjölmiðla, en það var greint frá atburðum á afar ólíkan hátt í norskum fjölmiðlum.
Við fáum Áslaugu Dungal í heimsókn í Lestina. Hún gaf út sína fyrstu plötu í fyrra, 6 laga plötuna Óviss. Við ræðum við hana um mýktina í tónlistinni og mýktina í glímunni, sem er önnur ástríða í lífi hennar.