K-Pop er það allra heitasta í tónlistarbransanum í dag. Hulda Hólmkelsdóttir er með hana á heilanum og tekur sér far með Lestinni næstu vikur til að útskýra fyrir okkur hinum af hverju kóreysk stúlkna- og drengjabönd eru að taka yfir heiminn.
Bergur Ísleifsson stendur á tímamótum. Ævistarf heyrir sögunni til: fór sömu leið og myndbandaleigurnar, VHS spólan, DVD-diskarnir....og kannski var kominn tími til. Það sem kom almenningi mest á óvart - þegar tilkynnt var að Myndir mánaðarins myndi ekki koma út framar - var eftir allt það að blaðið hefði ennþá verið að koma út. En Bergur elskaði að skrifa um kvikmyndir og í dag rifjar hann upp hvernig það sem var í grunninn auglýsingabæklingur varð að ástríðu.
Það eru fáir tónlistarmenn sem mótuðu hljóm hins svokallaða síðpönks jafn mikið og breski gítarleikarinn Andy Gill úr hljómsveitinni Gang of Four, en hann lést um helgina 64 ára að aldri. Hrykkjóttur, krampakenndur ásláttur, skær bjagaður hljómur, leikur að enduróm og hálfgerð and-gítarsóló einkenndu gítarleik hans og urðu einkennismerki þessarar stefnu. Við minnumst Andy Gill í Lestinni í dag, og ræðum við tvo einstaklinga sem þekktu hann úr ólíkum áttum Höllu gunnarsdóttur og Trausta Júlíusson.