Elham Fakouri er írönsk tónlistarkona sem spilar á persneska tréblásturshljóðfærið ney.Hún var í meistaranámi við Listaháskóla Íslands og að námi loknu sótti hún um tímabundið atvinnuleyfi í sínu fagi. Það getur verið gríðarlega flókið fyrir listamenn utan Evrópu að uppfylla kröfur vinnumálastofnunar um sérþekkingu og kunnáttu, næstum því ógerlegt. En Fakouri tókst það! Svo fékk hún nei.
Skyndilega og af óútskýrðum ástæðum gefa allar lífverur jarðar með Y-litninga upp öndina. Karldýr jarðarinnar drepast öll nema einn maður, 27 ára forréttindaaulinn Yorick. Þannig hefst myndasagan Ypsilon, síðasti maðurinn, Y: the last man, sem nú hefur verið löguð að sjónvarpsskjánum af sjónvarpsstöðinni FX. Eins og í heiminum eftir þessar hamfarir er framleiðsluteymi þáttanna að langmestu leyti skipað konum, ein þeirra er Herdís Stefánsdóttir sem semur tónlistina.
Og Þórður Ingi Jónsson heldur áfram að kanna þá dýrgripi menningarinnar sem hafa týnst eða glatast í tímans rás. Hann fer yfir sögu þöglu kvikmyndanna og hvers vegna svona fáar þessara kvikmynda hafa varðveist en aðrir þekktir Hollywood-karakterar frá 20. öldinni koma einnig við sögu svo sem Orson Welles og Jerry Lewis.