Síðastliðinn föstudag bárust fréttir af því að níðstöng hafi verið reist við Skrauthóla, er lítil byggð við rætur Esjunnar. Óvíst var gegn hverjum níðstöngin var reist eða hvað hún átti að merkja. Að gefnu tilefni veltum við fyrir okkur níðstöngum, sögu þessa fyrirbæris og notkun í samtímanum. Við ræðum við Terry Gunnel prófessor í Þjóðfræði og rifjum upp skipti þegar níðsangir hafa verið reistar.
Þegar Elizabeth Holmes var 19 ára stofnaði hún sprotafyrirtækið Theranos sem kynnti til sögunnar byltingarkennda blóðskimunartækni sem átti að geta greint margvíslega sjúkdóma með fáeinum blóðdropum. Holmes sannfærði fjöldan allan af fjárfestum að leggja stórfé í fyrirtækið, og var hún orðin að einni stærstu stjörnunni í kísildalnum þegar í ljós kom að fyrirtækið var byggt á lygum. Leiknu sjónvarpsþættirnir The Dropout sem eru aðgengilegir á Disney+ rekja sögu Holmes og Theranos. Salvör Bergmann segir frá þáttunum.
Hönnunarmars hefst á morgun. Að því tilefni sest Linda Björg Árnadóttir um borð í Lestina og segir frá doktorsrannsókn sinni í félagsfræði, þar sem hún skoðar meðal annars tengsl fata og velgengni hjá konum í fjármálageiranum á árunum í kringum hrun.