Nope, nýjasta mynd bandaríska leikstjórans Jordan Peele kom út í sumar. Geimverumynd sem gerist á hestabúgarði í Kaliforníu. Hingað í Lestina kemur Hrafn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður og spekúlant til að ræða Nope og þemu myndarinnar, sem varð til í miðjum heimsfaraldri.
Hljóðbókaveitan Storytel er í auknum mæli að snúa sér að framleiðslu hlaðvarpa og útvarpsleikrita - það sem þau kalla reyndar hljóðseríur. Fyrsta íslenska hljóðserían frá Storytel fór í loftið í sumar: Skerið, sem fjallar um íslenskan sjomla sem vaknar upp í óþekktu hótelberbergi eftir djamm á Tenerife. Hann kemst ekki af eyjunni, símasamband er stopult og dularfullir atburðir byrja að eiga sér stað. Við ræðum við höfunda Skersins, parið Áslaugu Torfadóttur og Ragnar Egilsson.
Og við ætlum að heyra nýja lagið frá Björk Guðmundsdóttur, Atopos, fyrsta lagið af væntanlegri plötu hennar Fossora, og ræða myndbandið sem inniheldur sveppi og sex bassaklarinett.