Tónlistarkonan Katrín Helga Andrésdóttir hefur ekki slegið slöku við síðustu vikur. Hún gaf út stuttskífu í síðustu viku undir nafninu Special-K og í þessari viku kemur út fyrsta lag samnorrænu “súpergrúppunnar“ Ultraflex sem og önnur breiðaskífa Reykjavíkurdætra. Katrín stígur um borð í Lestina í dag og ræðir þessa miklu uppskeru.
Við rýnum í sjónvarpsþættina Eins og fólk er flest, eða Normal People, sem byggja á samnefndri skáldsögu írska rithöfundarins Sally Rooney. Þættirnir hafa hlotið talsverða athygli áhorfenda víðs vegar um heim, meðal annars fyrir óvenju margar og langar kynlífssenur.
Og við sökkvum okkur ofan í orðaforða kófsins, nýyrðin sem hafa smitast manna á milli undanfarna mánuði: samskiptafjarlægð, smitskömm, kóviti svo einhver dæmi séu nefnd. Rætt verður við Jón Helga Hólmgeirsson, hönnuð, en á laugardag opnar hann sýninguna Mikilvægar ítranir í Ásmundarsal en þar leggur hann fram tillögur að nýjum merkingum orða sem komust í óvenju mikla umferð í kjölfar Covid-19.