Tónlistarmaðurinn Aron Can gaf út nýtt tónlistarmyndband á dögunum eða kannski öllu heldur tónlistarmynd: sögu sem leiðir áhorfandann í gegnum dystópíska útgáfu af Reykjavík þar sem undir hljóma lögin Flýg upp og Varlega af væntanlegri plötu söngvarans. Myndbandið er þannig í lengra lagi fyrir athyglisbrostinn samtímann en það er enda mikið í það lagt. Erlendur Sveinsson, kvikmyndagerðarmaðurinn á bakvið verkið tekur sér far með Lestinni.
Ingólfur Eiríksson pistlahöfundur fór í bústað um helgina og skrifaði þar sitt fjórða bréf til Birnu, bréf sem upprunalega átti að fjalla um andstyggð hans á fjallamennsku.
En það eru aðrir sem elska fjallamennsku og þeir munu eflaust flykkjast í Bíó Paradís í kvöld og á fimmtudag enda fer þá fram BANFF-fjallakvikmyndahátíðin. Védís Ólafsdóttir, einn skipuleggjenda sest um borð í Lestina og segir frá aukinni fjölbreytni í heimi fjallamennskumynda, þó enn séu þar auðvitað sagðar hetjusögur af ofurmannlegum afrekum