Við höldum niður í Skeifu þar sem tölvuleikjafyrirtækið Parity er staðsett, en nú fyrir helgi sendi fyrirtækið frá sér fyrstu kitluna fyrir tölvuleikinn Island of Winds, eyja káranna, sem kemur út á næsta ári. Kitlan hefur fengið yfir 120 þúsund áhorf á fjórum dögum og góðar viðtökur. Við ræðum við stofnanda Parity, Maríu Guðmundsdóttur, um galdra tölvuleikjanna og mikilvægi þess að konur taki pláss í hönnun þeirra.
Magnús Thorlacius notaði sumarið í að rannsaka sjálfsmynd Kópavogs. Hann skoðaði atburði í sögu bæjarfélagsins og kennileiti þess út frá óvæntum sjónarhornum og hefur sagt frá niðurstöðum sínum í pistlaröð hér í lestinni í haust. Hann hefur fjallað um skítalækinn svokallaða, vinabæinn Wuhan og í dag veltir hann fyrir sér tilraunum Kópavogs til að kallast borg.
Við heyrum líka um plötu sem fagnar aldarfjórðungs upptökuafmæli, Buena Vista Social Club. Tónlistarmaðurinn Tómas R. Einarsson segir okkur frá plötunni, listamönnunum á bakvið hana og listfengi hennar.