Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien hefur ekki verið fáanleg í íslenskri þýðingu um árabil. Í þætti dagsins reynum við að komast að því hvað veldur því að þessar geysivinsælu bækur eru horfnar úr bókabúðum hér á Íslandi.
Guðrún Elsa Bragadóttir, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar lá andvaka yfir nýjum lista, frá Sight and Sound yfir bestu myndir allra tíma. Hún veltir fyrir sér tilgangi slíkra lista, fyrir hvern þeir eru gerðir og hvaða hugmyndum, fagurfræði og hópum þeir hampa. Listinn hefur komið út með 10 ára fresti frá því árið 1952, þannig að þetta er alltaf svolítill viðburður. Nýi listinn hefur vakið miklar umræður vegna þess að það eru óvenju miklar breytingar á honum síðan síðast, meiri fjölbreytileiki og mynd eftir konu í fyrsta sæti.
Bandaríska tónlistarkonan SZA hefur látið aðdáendur sína bíða lengi eftir nýrri plötu en komin eru 5 ár síðan platan CTRL kom út. Platan SOS kom út þann 9. desember síðastliðinn, og SZA syngur einlægt og opinskátt um mótsagnakenndan veruleika ungra sjálfstæðra kvenna.