Við höldum áfram að spjalla um samtímamenningu ólíkra þjóða. Að þessu sinni höldum við til Evrópu. Anna Gyða Sigurgísladóttir segir okkur hvað ungir hinsegin parísarbúar eru að hlusta á og horfa á - jahh.. Eða ekki horfa á.
Þriðja þáttaröð Ófærðar eftir Baltasar Kormák hófst í gær. Heitfengi lögreglubangsinn Andri er mættur aftur norður á land til að rannsaka morð. Að þessu sinni þarf hann að sökkva sér ofan í skuggalegan heim mótorhjólagengja og ásatrúar-kakókölts. Sérstakt Ófærðarhlaðvarp er nú framleitt af RÚV en eftir því sem við best vitum er þetta í fyrsta skipti sem opinbert hlaðvarp fylgir leikinni sjónvarpsþáttaröð hér á landi. Við heyrum brot úr hlaðvarpinu Með Ófærð á heilanum í þætti dagsins.
Kristlín Dís Ingilínardóttir tekur sér far með Lestinni í dag. Í haust hefur hún flutt okkur pistla sem gætu gengið undir yfirskriftinni Beðmál í borginni.