Óskarsverðlaunin fóru fram í Los Angeles í gærkvöldi. Suðurkóreiska kvikmyndin Parasite kom sá og sigraði - fyrsta myndin á öðru tungumáli en ensku sem hlýtur verðlaun sem besta myndin. Hildur Guðnadóttir varð svo fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaunin, en hún var verðlaunuð fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jóker. Við ræðum um kvikmyndatónlist Hildar við Kristínu Jóhannesdóttur, leikstjóra, og Pétur Ben tónlistarmann.
Lestin kemur við í Sundlaugin Studio í Mosfellsbæ og ræðir við tónlistarmennina Tuma Árnason og Magnús Tryggvason Eliassen sem glíma við það stóra verkefni að túlka loftslagsbreytingar, vistdauða og söngva útdauðra fugla á væntanlegri plötu.
Kóreisk popptónlist, K-Pop, er það allra heitasta í tónlistarbransanum í dag. Hulda Hólmkelsdóttir flytur annan pistil af fjórum um það af hverju stúlkna- og drengjabönd frá Suður Kóreu eru að taka yfir heiminn. Að þessu sinni veitir hún leiðbeiningar um hvernig áhugasamir geta skapað sér feril sem K-pop stjörnur.