Í öðrum þætti Pam and Tommy - sem segir söguna af einni frægustu heimaklámmynd sögunnar - stígur óvænt stjarna myndarinnar á svið, nefnilega typpið á Tommy Lee. Atriðið er afar óvenjulegt og sumir áhorfendur hafa tekið það óstinnt upp en það er í það minnsta til þess fallið að endurvekja minninguna um einn frægasta reður Hollywood, Tommy Lee mögulega til nokkurrar gleði. En hvað með Pamelu?
Þórður Ingi Jónsson jaðarfréttaritari Lestarinnar í Bandaríkjunum hefur verið að þefa uppi það athyglisverðasta á jaðrinum vestanhafs. Að þessu sinni heimsækir hann listagalleríið Superchief sem er með útibú í New York, Miami og Los Angeles - en það síðastnefnda opnaði nýlega aftur eftir gassprengingu sem rústaði sýningarýminu í upphafi faraldurs.
Og við veltum fyrir okkur samtvinnun, öráreiti og hómó-nationalisma eða hinsegin þjóhverfu, með Hjörvari Gunnarssyni. En í mastersverkefni sínu tók hann viðtöl við og rannsakaði reynslu samkynhneigðra karla af asískum uppruna á Íslandi.