Um þessar mundir eru 40 ár frá skotárásinniá J.R. Ewing Junior í sjónvarpsþáttaröðinni Dallas. Áhorfendur um allan heim sátu eftir með stærstu ráðgátu sjónvarpssögunnar: Hver skaut J.R? Við köfum ofan í þessa spurningu og áhrif hennar í Lestinni í dag með aðstoð Dallas-sérfræðingsins Karls Ferdinands Thorarensen.
Nú á dögunum var George Floyd borinn til grafar í heimabæ sínum Houston í Texas. Dauði hans af hendi hvíts lögreglumanns í Minneapolis hefur kveikt mótmælaöldu gegn kynþáttahatri og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum og víðar. Á sínum tíma tók Floyd virkan þátt í rappsenu Houston ásamt einum frægasta plötusnúði allra tíma, DJ Screw. Við könnum í dag stuttan rappferil Big Floyd eins og hann var kallaður.
Manneskjan er nafli alheimsins. Að minnsta kosti hefur slík mannmiðjukenning verið undirliggjandi forsenda í allri hugmyndasögu vesturlanda undanfarnar aldir. Í öðrum pistli sínum af fjórum um stöðu mannsins í heiminum veltir Karl Ólafur Hallbjörnsson, heimspekinemi við Háskólann í Warwick, fyrir sér spurningum mannverunnar.
Við fylgjumst líka með kapphlaupi ungs sviðslistamanns við tímann þar sem hann flýtir sér heim frá Svíþjóð, í gegnum sóttvarnarsvæði og skimanir, til að mæta á Grímuverðlaunahátíðina í kvöld þar sem hann er tilnefndur.