Tölvuleikir eru andlegt ópíum sagði í ríkisreknum fjölmiðli í Kína ekki alls fyrir löngu. Og neyslu þessa stafræna ópíum fólksins vill kínverski kommúnistaflokkurinn lágmarka. Í lok ágúst bárust fréttir af því að til stæði að takmarka þann tíma sem kínversk ungmenni mega spila tölvuleiki niður í þrjár klukkustundir á viku. Guðbjörg Rikey Thoroddsen Hauksdóttir fræðir okkur um það sem liggur á bakvið kínverska tölvuleikjabannið.
Um helgina eignuðust Íslendingar í fyrsta skipti Alþingi sem samanstóð af fleiri konum en körlum - næstum því. Við áttum hugmyndina um kvennaþingið í fáeinar klukkustundir áður en endurtalning í Norðvesturkjördæmi gerði úti um þær, endurtalning sem reyndar er mjög umdeild.
Frambjóðendum sem töldu sig komna á þing brá í brún við fregnir af hrókeringum þingsæta, og einn fréttamaður, hljóp frá fiskisúpu tengdamóður sinnar á Húsavík til að leiðrétta heimsfréttirnar sem hann hafði fáeinum klukkutímum áður sent út í kosmósinn.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefst á fimmtudag. Hátíðin fór fram með breyttu sniði á síðasta ári - eins og svo margir aðrir menningarviðburðir - en nú snýr hún aftur: stórstjörnur heimsækja landið, erlendir sjálfboðaliðar verða í miðasölunni, dagskrárbæklingurinn er kominn úr prentun og veitir valkvíðnum kvikmyndaunnendum leiðbeiningar um kvikmyndaveisluna. Ritstjóri bæklingsins, Gunnar Ragnarsson, heimsækir Lestina í dag.