Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF hófst með pompi og prakt í síðustu viku. Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar lét sig ekki vanta. Og í þættinum í dag rýnir hann í myndirnar Dead Don't Die, Síðasta haustið og Space Dogs.
Undanfarnar vikur hafa bandarískir popptónlistarmiðlar fjallað ítarlega um réttarhöldin yfir rapparanum Tekashi Six-Nine, en til að forðast langan fangelsisdóm vegna ýmissa glæpa hefur hann samþykkt að veita lögreglu upplýsingar um félaga hans úr alræmdu glæpagengi. Honum býðst að hverfa í fjöldann í vitnavernd. Vandamálið er að hann er auðþekkjanlegur vegna fjölda húðflúra í andliti og á líkamanum. En væri hægt að losa hann við tattúin? Við kynnum okkur húðflúra-fjarlægingar í Lestinni í dag.
Útgáfu nýjustu plötu Kanye West hefur verið frestað í þriðja skipti en að þessu sinni virðist hún engu að síður yfirvofandi. Um helgina húrraði hann hópi frelsaðra Kanye fylgjenda inn í United Palace leikhúsið á Manhattan og spilaði fyrir þá hráa útgáfu af því sem koma skal - gospel þrunginni og blótlausri plötu, Jesus is King.
Og Halldór Armand flytur okkur að venju pistil á þriðjudegi. Að þessu sinni veltir hann fyrir sér ofurmannlegu afreki klettaklifrarans Alex Hannolds.