Á dögunum kom út fjórða breiðskífa spænsku tónlistarkonunnar Rosalia. 14 tungumál, sinfóníuhljómsveit, tólftu aldar nunna, óperusöngur, flamengó og Björk koma öll við sögu. Með plötunni LUX er Rosalia að stimpla sig rækilega inn sem einhvern merkilegasta popptónlistarmann samtímans. Friðrik Margrétar Guðmundsson mætir í Lestina til að kryfja til mergjar versta lag plötunnar (að mati Friðriks), fyrstu smáskífuna, Berghain.
Við flettum svo í glænýrri íslenskri myndasögu, Larfur Lauks: lifandi og deyandi í Reykjavík. Myndasagan rekur ævintýri Larfs og vinahóps hans, sem er fjölskrúðugur hópur furðufugla og djammara. Einn þeirra er brauðsneið, enn er skjaldbaka sem selur hass og spilar Counter strike, sá þriðji missir óvart typpið í skyndikynnum á klósettinu á skemmtistað. Mennirnir á bakvið söguna eru teiknarinn og myndlistarmaðurinn Björn Heimir Önundarson og Tumi Björnsson, sem hefur gert garðinn frægan með myndböndum og stuttmyndum undir merkjum Kaupa Dót.