Við endurflytjum þátt frá því í nóvember um samfélagsmiðilinn Goodreads.
Jólabókaflóðið er farið í gang og rithöfundar og útgefendur keppast við að sannfæra íslendinga um að þeirra bók sé einmitt sú sem þeir eigi að kaupa lesa og gefa í jólagjöf. Þeir setja andlit rithöfunda á strætóskýli, setja auglýsingar í blöðin, vonast til þess að gagnrýnendur Kiljunnar dásami verkið, það hljóti tilnefningu til verðlauna, eða að almennir lesendur hrósi henni á netinu, á samfélagsmiðlum eða sérstökum bókasíðum eins og Goodreads. Þátturinn er helgaður vefsíðunni Goodreads, þar sem notendur geta haldið utan um bókalestur sinn, skrifað ummæli og gefið bókum stjörnur, líkt og bókagagnrýnendur. Við heyrum í notendum Goodreads, bæði lesendum og höfundum, en milli þessara tveggja hópa getur skapast óþægileg spenna þegar dómar eru neikvæðir.