Fyrir viku síðan fór í loftið fölsuð heimasíða útgerðarfyrirtækisins Samherja. Á síðunni stendur stórum stöfum We?re sorry! Við biðjumst afsökunar. Þar má lesa formlega afsökunarbeiðni, þar sem útgerðarfyrirtækið axlar ábyrgð á gjörðum sínum í Namibíu, mútum og spillingu. Í dag kom svo í ljós að það er útskriftarnemi við myndlistadeild Listaháskólans sem ber ábyrgð á síðunni, og er hún hluti af lokaverkefni hans úr skólanum. Hann heitir Oddur Eysteinn Friðriksson, kallaður Odee og verður gestur okkar í Lestinni í dag.
Hann er einn þeirra fjölmörgu listamanna sem sýna verk sín í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, á morgun en þar verður útskriftarsýning nemenda á BA stigi í Listaháskóla Íslands. Á sýningunni, sem kallast heilt yfir Rafall, gefur að líta lokaverkefni rúmlega 70 nemenda í myndlist, grafískri hönnun, arkitektúr, fatahönnun og vöruhönnun. Við förum í heimsókn í Hafnarhúsið.
Loks fáum við pistil frá Hauki Má Helgasyni, rithöfundi, sem hefur verið með pistla hér vikulega í þættinum um gervigreind og velt fyrir sér áhrifum og merkingu þessarar yfirstandandi tækniþróunar. Hann er að þessu sinni með hugan við heimsenda og þá sem undirbúa sig undir hann.