Tímaritið New Yorker hefur sent einn af sínum þekktustu blaðamönnum í leyfi í kjölfar atviks sem upp kom á Zoom fundi. Jeffrey Toobin beraði sig og snerti fyrir framan myndavélina í fundarpásu en líklegt þykir að um óviljaverk hafi verið að ræða þar sem skil heimilis og heimavinnu urðu... loðin. Við fjöllum um mál Toobin og sjálfsfróun í vinnunni í Lestinni í dag. Tákn og táknlæsi var til umræðu í vikunni vegna merkja á búningi íslenskrar lögreglukonu. Við kynnum okkur sögu eins merkisins, Vínlandsfánans. Pétur Eggertsson er að reyna að slaka á en samt er hann að gera svo margt í einu: skrolla, lesa, skoða og hlusta. Kannski þarf hann app, með hvítu suði eða ASMR? Og Una Björk Kjerúlf flytur okkur pistil, löðrandi í sápu og nostalgíu. Hún spyr sig meðal annars hvaða haldreipi við höfum að grípa í til að dreifa huganum á þessum síðustu og heimavinnandi verstu.