Það er stundum talað um að börn séu fæddir heimspekingar. Það er kannski ekki svo að þau geti skrifað ritrýndar fræðigreinar um sögu heimspekinnar en þau eru fordómalaus, óhrædd við að spyrja og búa yfir þeim stórkostlega eiginleika að vera forvitin og undrast í sífellu yfir umhverfi sínu. Í nýju barnaleikhúsverki, Manndýr, reynir Aude Busson að rækta þessa heimspekingslegu hegðun barna. Aude heimsækir Lestina í dag og segir frá.
Una Björk Kjerúlf flytur okkur pistil í Lestinni á þriðjudegi. Að þessu sinni rifjar hún upp pennavini úr æsku og gildi þess að pára með blýanti á blað frekar en að skrifa með því hamra á lyklaborð eða pikka með fingrum á skjá.
Kvikmynda- og leikhúsframleiðandinn Scott Rudin er einn valdamesti maður Hollywood og Broadway en varla mikið lengur. Eftir tugi ásakana um ofbeldi á vinnustað, sem fyrst komu fram í rannsókn Hollywood Reporter í byrjun mánaðarins, virðist fullljóst að ógnarstjórn Rudin eigi sér hliðstæðu í kynferðisbrotum Harvey Weinstein - hún var opinbert leyndarmál sem enginn þorði að hafa hátt um af ótta við afleiðingarnar.
Og við heyrum um ungan rússa sem festist gegn eigin vilja í raunveruleikaþætti þar sem keppst var um að komast í dansandi og syngjandi boy-band.