Hann lést á föstudag, 91 árs að aldri og söngleikjaheimurinn syrgir. Fráfall Stephen Sondheim markar eftir allt einhvers konar tímamót, fáir ef einhverjir hafa haft viðlíka áhrif á vestræna leikritun síðustu áratugina enda má í söngbók Sondheim finna efni úr sýningum á við West Side Story, Gypsy, Into the Woods og Sweeny Todd. Undanfarnar vikur höfum við reglulega litið við hjá Sigríði Jónsdóttir, sérfræðingi á leikminjasafni íslands, en í dag kemur hún í heimsókn, með tárin í augunum.
Í hverjum þætti fram að jólum ætlum við í Lestinni að útvarpa jólasögum frá meistaranemum í ritlist við Háskóla Íslands. Þetta eru örsögur, hver þeirra 91 orð og allar eru þær unnar út frá sama þemanu: Grautur. Við ætlum að hefja lesturinn í dag, og við fáum líka til okkar tvo ritlistarnema í spjall, þau Helga Grím og Berglindi Ósk.
Gamalt fréttastef, flökkusaga um rifbein Marilyn Manson, torfbær og nýtt lag frá Taylor Swift kemur allt við sögu í pistli Sölva Halldórssonar í dag, en hann er að velta fyrir sér minninu.