Á undanförnum árum hefur orðið stórstíg þróun í erfðatækni sem gerir vísindamönnum kleift að klippa út og breyta eiginleikum í genamengi lífvera. Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og telja að innan skamms muni vísindamenn geta farið að hanna einstaklinga, skapa erfðabreytt börn. Hollywood-kvikmyndin Gattaca sló í gegn árið 1997 með því að varpa upp slíkri framtíðarsýn. Myndin fjallar um framtíðarsamfélag þar sem erfðamengi einstaklingsins segir allt um stöðu hans í samfélaginu, tækifæri og örlög. Í Lestinni í dag verður rætt við Ernu Magnúsdóttur, líffræðing, um þær hugmyndir sem eru settar fram í kvikmyndinni með hliðsjón af þeim möguleikum sem nú virðast handan við hornið í erfða- og líftækni.
Sjálfið og sjálfsfróun verður einnig til umræðu í Lestinni. Rætt verður við Írisi Stefaníu Skúladóttur, sviðslistakonu, sem hefur unnið ýmis verkefni tengd sjálfsfróun og flytur þátttöku gjörning á Akureyri um helgina sem og á listahátíðinni Sequenses.
Halldór Armand Ásgeirsson veltir fyrir sér því hvort kirsuberjatréð í garðinum hans gæti kært þresti himinsins fyrir að gæða sér á ávöxtum þess.