Hvaða hugsjónir eru það sem láta mann hlekkja sig við vinnuvél á hálendinu, hvað pólitík dregur hannn upp á þak alþingishússins vopnaðan bónusfána, hvaða sannfæring togar manneskju yfir hálfan hnöttinn til að taka þátt í blóðugu frelsisstríði? Að svara slíkum spurningum er eitt af markmiðum nýrrar heimildarmyndar sem nú er í hópfjármögnunarferli á karolinafund, mynd um pólitíska aðgerðasinnann og andófsmanninn Hauk Hilmarsson. Við ræðum við Jón Grétar Jónasson leikstjóra.
Í starfi sínu gerist Helga Hilmisdóttir stundum fluga á vegg, hlustar á samtöl unglinga og skráir hvert einasta orð. Nýlega skráði hún rúmlega 20 þúsund slík sem flugu á milli tveggja 15 ára drengja, á meðan þeir spiluðu tölvuleikinn Grand Theft Auto - svo taldi hún hversu mörg þessara orða voru framandorð. Helga, sem er rannsóknardósent við árnastofnun, tekur sér far með Lestinni í dag og segir okkur frá því sem fyrir eyru bar.
Þórður Ingi Jónsson lætur hugan reika til þess tíma þegar hann var lítill og saklaus drengur sem hætti sér inn á svokallaðar sjokksíður - vefsíður sem áttu að vekja ógeðfelld viðbrögð hjá áhorfandanum.Verður hann og hans kynslóð nokkurn tímann söm eftir að hafa ferðast um skuggasund internetsins í æsku?