Eftirlífsljósmyndun eða sorgarportrett, þar sem látinn einstaklingur er ljósmyndaður, hófst sennilega með tilkomu ljósmyndatækninnar, í kringum 1850. Hefðin fjaraði víða út fyrir miðja síðust öld en í Litháen lifði hún hins vegar mun lengur. Leifur Wilberg Orrason, ljósmyndari og grafískur hönnuður, hefur í nokkur ár safnað eftirlífsljósmyndum frá Litháen. Leifur Wilberg verður gestur Lestarinnar í dag. Hann fræðir hlustendur nánar um jarðarfaraljósmyndir. Tónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Textasy frá Dallas í Texas er eitt heitasta nafnið í raftónlistarheiminum um þessar mundir en hann er þekktur fyrir að blanda Suðurríkja-rappi saman við danstónlist úr ýmsum áttum. Textasy er nú búsettur í Berlín, þar sem hann gefur meðal annars út tónlist eftir íslenska raftónlistarmenn. Rætt verður í þættinum í dag við Textasy um tónlistarsenuna í Dallas boðið verður upp á tóndæmi. Einnig verður í Lestinni í dag sagt frá nýju menningartímariti, Skandala. Og Karl Ólafur Hallbjörnsson fjallar í pistli sínum í dag um argentínska rithöfundinn Jorge Luis Borges, Júdas Ískaríot og kristindóminn.