Í Lestinni í dag hittum við Berg Ebba Benediktsson í rúllustiga í Kringlunni og ræðum þar við hann um nýja bók hans Skjáskot, þar sem hann gerir tilraun til að greina hvaða áhrif hinn sítengdi og snjallvæddi samtími hefur á hug okkar og hjörtu.
Hvernig á að íslenska hugtakið „Slow Television"? Hægt sjónvarp? Hægvarp? Í öllu falli, þá hefur sólarhringsútsending sjónvarpsþáttarins Landans verið bendluð við þetta hugtak. Það passar einhvern veginn ekki alveg enda er lítil ró yfir Landanum þennan sólarhringinn. Þar er þó eitthvað töfrum slungið í gangi - Anna Marsibil rannsakar málið.
Gunnar Theodór Eggertsson rýnir tvær kvikmyndir og ástríðuverkefni, annars vegar kvikmynd Terry Gilliams, The man who killed Don Quixote, og hins vegar nýja íslenska heimildarmynd Kaf.
Rætt verður um Emmy sjónvarpsverðlaunin sem voru afhent um helgina
Og í pistli sínum í dag skoðar Tómas Ævar Ólafsson þessa einkennilegu strauma, hrif eða bylgjur sem geta skapast á milli fólks og valdið óútskýranlegum óþægindum.
Umsjón: Kristján Guðjónsson og Anna Marsibil Clausen.