Glysrokkarinn Eddie Van Halen lést í vikunni 65 ára að aldri. Hann var einhver allra fingrafimasti gítarleikari rokksögunnar, þekktur fyrir miklar leikfimiæfingar á gítarhálsinum. Við kynnum okkur feril þessarar gítargoðsagnar í Lestinni í dag. Una Björk Kerúlf fer með hlustendur á listasöfn um allan heim og veltir fyrir sér sjónarhorni minninganna og áhrifum þeirra á upplifun okkar á listum. Pétur Eggertsson tónskáld heldur áfram að skoða áhrif síbylju á samfélagið og fjallar í dag um nýja tegund af eyrnaormi, eða sníkjudansinn sem herjar á ungmenni allstaðar í gegnum TikTok. Vélmenni úr framtíðinni reyna að semja poppmúsík í anda þeirrar tónlistar sem var vinsæl í upphafi 21. aldarinnar. Þau reyna að líkja eftir mannfólkinu í útliti og hreyfingum og syngja um mannlegar tilfinningar sem þau þekkja ekki. Einhvern veginn þannig mætti lýsa stemningunni sem gjörninga-hljómsveitin Holdgervlar miðlar með tónlist sinni. Holdgervlarnir Kristín Mjöll og Hjalti Freyr heimsækja Lestina.