Myndlistarsýningin Snúrusúpa opnar á Vetrarhátíð í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á fimmtudag. Sjö listamenn taka þátt og fást við sama efniviðinn, rafmagn, sem er alltumlykjandi þáttur í lífi manna. Tilvistin er snúrusúpa, eins og segir í kynningu. Tveir úr listamannahópnum líta við í Lestina, þau Atli Bollason og Una Sigtryggsdóttir.
Við förum líka til Írlands og veltum fyrir okkur húsnæðismarkaðinum, stéttavitund og menningarauðmagni í bókum írska rithöfundarins Sally Rooney. Við ræðum við Ingunni Snædal, þýðanda bókarinnar Fagri heimur, hvar ert þú, eftir Sally Rooney, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2022.