Efir fráfall leikkonunnar bandarísku Kirstie Alley í byrjun viku voru þættirnir Staupasteinn eflaust ofarlega í huga margra. Kirstie Alley lék framakonunna Rebeccu Howe sem er kynnt til sögunnar í sjöttu seríu Cheers, og margir telja þessa innkomu hennar í þættina hafa gert það að verkum að þeir lifðu svo lengi í viðbót. Við fengum dyggan Cheers aðdáanda, Bjarna Gaut Tómasson, til að segja frá Alley og þáttunum, sem hann kallaði vináttu-hermi. Við áhorf á Staupasteini líði manni eins og maður sé staddur á bar með vinum sínum.
Við veltum fyrir okkur list og dreifingarleiðum listar og einokunarstöðu fyrirtækja á borð við Amazon. Jóhannes Ólafsson segir frá.
Patrekur Björgvinsson býður okkur á rúntinn með sér á Akranesi og veltir því fyrir sér menningarfyrirbærinu, og manndómsvígslunni sem rúnturinn er.
Viðar Freyr Guðmundsson segir söguna af William Shockley, manninum sem fann upp transistorinn og bjó óvart til Kísildalinn.