Í þessari viku kynnum við okkur nokkra íslenska TikTok-ara. Í gær kynntumst við TikTok stirninu LilCurly en í dag komum við okkur fyrir í förðunarstól Emblu Wigum. Embla er með yfir 840 þúsund fylgjendur á forritinu þar sem hún deilir stuttum myndböndum af sér að farða sig og sýnir svo útkomuna sem er yfirleitt ævintýri líkust.
Um lítið annað er rætt á Íslandi þessa dagana en mögulega samninga við bandaríska lyfjarisann Pfizer um að Íslendingar fái mikið magn bóluefnaskammta sem hluti af vísindarannsókn á hjarðónæmi. Við pælum í siðferði þess að Íslendingar fái hjarðónæmi gegn kórónaveirunni fyrst allra þjóða.
Undir lok þáttar fáum við pistil frá Halldóri Armand Ásgeirsson sem fylgdist náið með hinni stór-undarlegu atburðarás þegar smáfjárfestar á umræðusíðunni Reddit fóru í hart við vogunarsjóði á Wallstreet - og vörpuðu um leið ljósi á það hvernig stjórnmál samtímans hafa tekið 90 gráðu snúning.