Þegar kynnt var að Ríkissjónvarpið ætlaði að sýna átta þátta heimildasjónvarpsseríu um kórónaveirufaraldurinn á Íslandi þá voru margir sem hváðu. Er þetta nú tímabært? Heimildaþættirnir Stormur á RÚV hafa hins vegar notið mikilla vinsælda enda veita þeir einstaka innsýn, bæði bakvið tjöldin hjá valdaaðilum og inn í líf og dauða almennra borgara á fordæmalausum tímum. Við ræðum við framleiðendur og leikstjóra þáttana, Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sævar Guðmundsson, um línudansinn milli blaðamennsku og kvikmyndagerðar.
Við heyrum framhald af pistli Jakub Shachowiak sem við fluttum í Lestinni í gær. Þar rifjar hann upp minningar og mótandi augnablik í lífi sínu, æsku sína í Póllandi, þegar hann sagði frá því í skólanum að hann hafi lesið Brokeback mountain í sumarfríinu, þegar hann játaði ást sína á besta vini sínum. Jakub heldur áfram að rifja upp augnablik sem leiddu hann að því að finna röddina sína á íslensku.