Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sagði frá uppvextinum á Siglufirði. Hún sagði frá hvernig staðurinn var paradís fyrir börn og hvernig hún var umkringd sköpun og handverki alla sína ævi. Hún rifjaði upp hvernig hún rambaði á Myndlistarskólann á Akureyri þegar hún var flutt með fjölskyldu sinni frá Siglufirði til Akureyrar og hvernig hún fann sína fjöl í myndlistinni. Aðalheiður sagði einnig frá hvernig hún ásamt fleira fólki hefur umbreytt gömlum byggingum og svæðum í vettvang sköpunar, til að mynda Gilinu á Akureyri, verksmiðjunni á Hjalteyri, félagsheimilinu Freyjulundi og nú Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hún sagði einnig frá afmælunum sínum og miklu sýningarhaldi í tengslum við þau enda annálað afmælisbarn. Rætt var við Aðalheiði í fyrri hluta þáttarins.
Í seinni hluta þáttarins var hringt í Tótlu I. Sæmundsdóttur, fræðslustýru Samtakanna 78. Hún og dætur hennar voru staddar á Suðurlandinu með stórum hópi vinafólks, en dæturnar voru að gista í tjaldi í fyrsta skipti sem reyndist mikið ævintýri. Tótla sagði einnig frá ferðalögum sínum um sunnanverða Vestfirði auk þess að fjalla um komandi tíma hjá samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá.
Í seinni hluta þáttarins var auk þess tekið við kveðjum frá hlustendum í gegnum Facebook-síðu Rásar 2.
Umsjón: Gígja Hólmgeirsdóttir