Í dag kemur tímaritið Iceland Review út á íslensku í fyrsta sinn í 57 ára sögu blaðsins. Útgáfan er viðbrögð við fordæmalausum tímum, þar sem engir túristar eru eftir á landinu til að lesa sér til um land og þjóð. Tímaritið Reykjavík Grapevine hefur eins fundið fyrir breyttu árferði og hefur brugðist við því með aukinni sókn á veraldarvefnum. Gréta Sigríður Einarsdóttir, ritstjóri Iceland Review og Valur Grettisson, ritstjóri Reykjavík Grapevine, taka sér far með Lestinni í dag.
Við höldum inn í miðju svartholsins, sérstæðuna, örlítinn punkt þar sem tímarúmið er óendanlega sveigt. Fjórir reykvískir hönnuðir hafa skapað slíka sérstæðu í hátíðarsal Iðnó en þessi gagnvirka innsetning er einskonar miðja Listahátíðar í Reykjavík sem fer fram með óvenjulegu sniði í ár.
Og Marta Sigríður Pétursdóttir gerir heimsmálin, og málin hér heima fyrir, að umtalsefni sínum í örlítið óvenjulegum kvikmyndapistli.