Þú stendur á Strikinu, á Times Square, við Notre Dame, á pínu litlu kaffihúsi í Kuala Lumpur og þú sérð annan Íslending. Þú þarft ekki að þekkja hann, þarft ekki að heyra hann tala. Þú bara veist að þetta er Íslendingur. En hvernig? Í Lest dagsins veltum við fyrir okkur hvort líkamar, rétt eins og raddir, hafi hreim. Harpa Rún Kristjánsdóttir, bóndi og bókmenntafræðingur tekur sér far með Lestinni í dag. Hún flytur okkur pistil um sveitalífið og nostalgíu borgarbarna. Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftir á nefnist ný bók Höllu Birgisdóttur, myndskálds. Í bókinni notar Halla myndir og texta til að segja frá og vinna úr reynslu sinni af því að fara í geðrof. Halla býður okkur heim í Breiðholtið. Pétur Eggertsson tónskáld flytur pistil um síbylju og skynjun í samtímanum.