Þjóðarbókhlaðan er annað heimili margra háskólastúdenta um þessar mundir, enda jólaprófin um það bil að skella á. Þessi sérstæða bygging á sér langa og merkilega sögu - þjóðargjöfin sem tafðist. En í gær, 1. Desember, voru liðin 25 ár frá því Þjóðarbókhlaðan var opnuð. Við kíkjum niður á Birkimel og röltum um ranghala bókhlöðunnar.
Hún er líkamsræktarfrömuður, fyrirsæta, leikkona og aðgerðasinni. Á hverjum föstudegi tekur hún þátt í mótmælum gegn aðgerðarleysi bandarískra stjórnvalda í loftslagsmálum. Á síðustu mánuðum hefur hún margsinnis verið handtekin fyrir óspektir. Hún er 81 árs og hún heitir Jane Fonda.
Og Áslaug Torfadóttir rýnir í þriðju þáttaröð krúnunnar, The Crown, sem fjallar um ævi Elísabetar Englandsdrottningar, fjölskyldu hennar og samferðafólk. Fyrstu tvær seríunnar nutu gríðarlegrar velgengni en í þeirri þriðju hefur nær öllum upprunalegu leikurunum verið skipt út.