Hver má nota hvaða hárvörur? Eiga svartar konur einkarétt á hárvörum sem henta þeirra hári? Chanel Björk Sturludóttir verður með pistla hér í Lestinni næstu vikurnar og hún ætlar að byrja á því að fjalla um hárvörur svartra kvenna sem hafa orðið vinsælar eftir að hvítir áhrifavaldar uppgötvuðu þær.
Ný aðferðafræði er að ryðja sér rúms í íslensku tónleikalíf. Þekktir erlendir tónlistarmenn koma og spila á tónleikum í Hörpu, en tónleikarnir eru ekki fyrst og fremst hugsaðir fyrir heimamenn heldur harða aðdáendur sem vilja gera sér ferð til Íslands og fá að sjá uppáhaldshljómsveitina sína nokkur kvöld í röð. Wilco, Pavement, Elvis Costello og svo hljómsveitir sem fáir Íslendingar þekkja. Við hringjum í tónleikahaldarana Ethan Schwarz og Larry Siegel sem hafa flutt inn nokkrar hljómsveitir og nokkur þúsund tónleikagesti með þeim.
Tucker Carlson er langvinsælastur bandarískra þáttastjórnenda, en samt var hann rekinn á dögunum frá Fox news. Við veltum fyrir okkur mögulegum ástæðum þess og hvaða áhrif þetta hefur á bandarískt fjölmiðlalandslag og stjórnmál. Hallgrímur Indriðason, fréttamaður RÚV, hefur sett sig inn í málið.