Certified Lover Boy nefnist sjötta breiðskífa rapparans Drake sem kom út nú á föstudag. Drake er kanadamaður af gyðingaættum og hóf ferilinn sem barnastjarna í sjónvarpi en hefur tekist að verða vinsælasti rapptónlistarmaður samtímans. Við spjöllum um Drake, nýju plötuna og ríginn við Kanye West við Bergþór Másson, skoðanabróður og rappspekúlant.
Í ágúst voru 20 ár síðan þá upprennandi óskastjarna RnB tónlistarinnar, Aaliyah, fórst ásamt átta öðrum í flugslysi á Bahama eyjum, aðeins 22 ára gömul. Síðustu vikur hefur dánarbú hennar gefið út eldri tónlist á streymisveitum og tilkynnt um nýja plötu með óútgefinni tónlist, meðal annars í von um að hrifsa minningu hennar úr fangi harmleiksins. En á sama tíma eiga sér stað réttarhöld sem rífa upp önnur, eldri sár.
Við minnumst söngkonunnar Aaliyuh í Lestinni í dag.
Gamlar perlur kvikmyndasögunnar og stórmerkilegt menningarefni leynist oft á netinu þó fólk hafi talið það týnt og tröllum gefið. Þórður Ingi Jónsson skyggnist um á háalofti netheima í leit að fjársjóðum.