Í fréttum undanfarna daga hefur verið fjallað um uppljóstranir sænska dagblaðsins Dagens Nyheter sem hafa varpað ljósi á tengsl fyrrum yfirmanns hjá Spotify og útgáfufufyrirtækisins Firefly Entertainment. Óþekktir (og uppskáldaðir) tónlistarmenn sem tengjast fyrirtækinu virðast hafa furðulega greiða leið inn á vinsæla og ábatasama spilunarlista á Spotify - með einfalda og endurtekningasama tónlist sína. Við hringjum í Linus Larsson, tækniblaðamann Dagens Nyheter, og fræðumst um málið.
Páll er ungur ekkill sem hefur lokað sig frá samfélaginu. Allt breytist þó þegar ung kona fær hjá honum húsaskjól eftir að hafa flúið úr ofbeldisaðstæðum. Þannig hljómar upplegg nýrrar íslenskrar kvikmyndar Uglur sem verður frumsýnd í næstu viku. Leikstjórinn heitir Teitur Magnússon og vann myndina nánast upp á sitt einsdæmi.
Tónlistar- og myndlistarkonan Hayden Dunham vakti athygli árið 2014 þegar hún kom fram sem sýndarstaðgengillinn QT í frægu lagi eftir tónlistarmennina A.G. Cook og Sophie en nú hefur þessi listamaður tekið sér nýjan ham, Hyd, og hefur hún tónleikaferðalag sitt um heiminn í Reykjavík á Húrra á laugardagskvöld. Þórður Ingi Jónsson hitti Hyd í Echo Park í Los Angeles og ræddi við hana um lífið og listina.