Áhangendur tyrkneska karlalandsliðslins í knattspyrnu eru ævareiðir og þeir eru ekki hræddir við að sýna það. Þeirra menn þurftu að bíða lengi á Keflavíkurflugvelli, það var ekki töluð tyrkneska á blaðamannafundi Íslenska liðsins og síðast en ekki síst gerðist íslenskur íþróttafréttamaður svo grófur að ota klósettbursta að fyrirliða liðsins. Nema, þetta var auðvitað ekki íslenskur íþróttafréttamaður. Og þetta var ekki klósettbursti. Hvað sem því liður hafa tyrkneskir netverjar tekið málið óstinnt upp eins og íslenskir íþróttafréttamenn hafa mátt finna fyrir. Við fjöllum um fótbolta og ofbeldi á netinu í Lestinni í dag.
Við ætlum líka að fjalla um popptónlist í þætti dagsins, fyrstu íslensku dægurtónlistina. Upphaf íslenskrar dægurtónlistar er hulið nokkurri þoku, en henni léttir ekki fyrr en í kringum 1930 þegar fyrstu lögin birtust á nótum og voru gefin út á hljómplötum. Fyrir þann tíma eru áþreifanlegar heimildir afskaplega óljósar. En hvernig hljómaði íslenskt popp fyrir hundrað árum. Til að greina einhverjar útlínur í þessari þoku tímans, til að svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistarhefðar, fáum við til okkar Trausta Jónsson veðurfræðin og tónlistaráhugamann. hann hefur um árabil leitað að upphafi íslenkrar dægurtónlistar. En nú í vikunni stendur hann fyrir tónleikum þar sem hann gefur fólki innsýn í þessa leit.
Og í pistli sínum í dag fjallar Halldór Armand Ásgeirsson um listaverk sem eru bæði góð og slæm á sama tíma.