Þórður Ingi Jónsson horfir til himins í Kaliforníu með íslensku ljósmyndurunum Bergdísi Guðnadóttur og Önnu Grímsdóttur. Þær hafa verið að kanna fljúgandi furðuhluti þar vestra þar sem hugtakið UFO hefur verið mikið í deiglunni eins og endranær en hefur víst fengið nýja skammstöfun, UAP.
Brynja Hjálmsdóttir flytur okkur lokapistil sinn í Lestinni. Í dag fjallar hún um fegrunar eða útlitslækningar, sögu þeirra og vandamál. Þær kosta víst bara sama og nokkrar klippingar, nokkur skipti út að borða, ekki meira en nokkrir fullir tankar á bílinn?
Sumir eiga svo mikla peninga að þeir vita ekki hvað á að eyða þeim í, sumir eyða þeim í undirbúning fyrir það sem óljóst er hvort sé á leiðinni. Í tilefni af Lestarþætti gærdagsins, þar sem farið var rækilega ofan í saumana á heimsendafrásögnum þá og nú rifjum við um innslag Lóu Bjarkar Björnsdóttur um undirbúning hinna offurríka fyrir dómsdag.
Við endum á að hlusta á smá brot úr plötunni Cracker Island, áttundu hljóðversplötu teiknihljómsveitinnar Gorillaz sem kom út fyrir helgi.