Fréttir af yfirvofandi stormi hafa tröllriðið fréttum sem og samræðum í dag en það er svo sem ekkert nýtt að Íslendingar láti sig veðrið varða. Af hverju tölum við svona mikið um veðrið? Hvað erum við í rauninni að segja? Við lítum til veðurs í Lestinni í dag.
Kuldaljóð nefnist ný sýning vegglistateymisins Krot&krass, þar eru verk innblásin af íslensku höfðaletri og íslenskum veðurorðum. Við ræðum við Elsu og Björn Loka, um kuldaljóð og ferðalög, en á undanförnum árum hafa þau ferðast um landið og heiminn í húsbíl og málað leturlistaverk sín á auða gafla og hvíta veggi.
Við höldum út í eyðimörkina með Halldóri Armand Ásgeirssyni. Meðal þess sem kemur við sögu í pistli hans þennan þriðjudaginn er meinlætamaður í frumkristni, geðlæknir í útrýmingabúðum nasista og eyðimerkurgangan sem við þurfum öll að leggja á okkur.
Og við kíkjum á tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna.