Hulda B. Waage er á meðal sterkustu kvenna landsins en hún bætti eigið Íslandsmet í bekkpressu um helgina þegar hún lyfti 150 kílóum og tryggði sér þátttöku rétt í heimsmeistaramótinu í greininni. Hún deildi árangrinum með fylgjendum sínum á Instagram, eins og hún gerir reglulega, en þar, inn á milli lyftingamyndskeiða og vöðvasjálfa er allt út í matarmyndum. Vegan matarmyndum. Hnausþykkir vöðvar Huldu eru nefnilega alfarið reknir án dýra og dýraafurða. Við fjöllum um afrek Huldu og kraftlyftingar á vegan fæði í Lestinni í dag.
Við rýnum líka í hönnun sem hefur það að markmiði að dulbúa notendur fyrir sjálfvirkum andlitsgreiningartækjum og eftirlitsmyndavélum, föt fyrir þá sem vilja aftengjast eftirlitssamfélaginu með stíl.
Í pistli sínum í dag fjallar Halldór Armand Ásgeirsson um sögurnar sem við segjum okkur sjálfum, og þar koma meðal annars við sögu lasagna, Joan Didion og áætluð viðbygging við Stjórnarráðshúsið.
Og við heyrum örstutt um bandarísku fræðikonuna og aðgerðasinnann Angelu Davis.